TRALLI
Sögu Tralla trúðs má rekja aftur til aldamóta þegar hjónin Fjalar Freyr Einarsson og Dögg Harðardóttir Fossberg tóku að sér sunnudagaskólann í Húsavíkurkirkju. Eftir brottflutning fjölskyldunnar frá Húsavík endaði Tralli í kassa uppi á háalofti. Árið 2005 ákvað Einar Aron Fjalarsson Fossberg að gerast töframaður, þá níu ára gamall. Tíu árum síðar fann hann Tralla, hugsaði sér gott til glóðarinnar, og endurvakti hann á bæjarhátíðum víða um land. Það varði þó ekki lengi og honum var pakkað niður í tösku. Á vormánuðum 2023 fékk Tralli tækifæri til að kynna trúðaís sem var að koma á markað. Gleðin í kringum hann var mikil og það var þá sem hugmyndin um Tralli.is kviknaði.
Spólum samt aðeins til baka. Árið 2014 setti Einar Aron upp vefinn barnaafmæli.is og fjórum árum síðar fór brúðkaupið.is í loftið. Töfrasprotar voru keyptir til að nota í gjafapoka (e. goodie bag) og gyllt hnífapör til að leigja út í brúðkaupsveislur. Með tímanum bættust við tæki og tól og umfangið varð meira. Búnaðinn mátti leigja á vefsíðunum tveimur og uppi var hugmynd um að setja það jafnframt á vefsíðu töframannsins og hjá vini hans, Askasleiki. Tví-, þrí- og fjórtekning yrði tímafrekt, dýrt og flókið. Það þurfti að samræma þetta. Jóel Fjalarsson flutti um þetta leiti til landsins eftir nám erlendis og saman keyptu þeir bræður lasertag byssur. Nú var nauðsynlegt að koma þessu öllu undir eitt þak, saman gáfu þeir Tralla nýtt tækifæri og Tralli.is leit dagsins ljós. Öll fjölskyldan hefur nú haft aðkomu að Tralla í mismunandi hlutverkum en bræðurnir Jóel og Einar Aron eiga fyrirtækið saman.